Umhverfis- og auðlindaráðherra heimsótti Vesturlandsskóga

Ráðherra heimsækir stofnanir og verkefni á Hvanneyri

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heimsótti Vesturlandsskóga og starfsstöðvar Landgræðslunnar og Veiðimálastofnunar á Hvanneyri mánudaginn 12. nóvember. Vesturlandsskógar og Veiðimálastofnun eru meðal þeirra verkefna og stofnana sem fluttust til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við breytingar á stjórnarráðinu 1. september síðastliðinn.

Heimsóknin hófst á fundi með starfsmönnum Veiðimálastofnunar á Hvanneyri en
áður hefur ráðherra heimsótt höfuðstöðvar stofnunarinnar í Reykjavík. Á fundinum kynntu starfsmenn ráðherra það starf sem unnið er á vegum stofnunarinnar á Hvanneyri, en það lýtur m.a. að vöktun og rannsóknum á fiskistofnum í þeim fjölmörgu veiðiám sem er að finna á svæðinu. Að því loknu var fundað með starfsmönnum Landgræðslunnar á Hvanneyri þar sem ráðherra fræddist m.a. um uppgræðslustarf bænda undir yfirskriftinni Bændur græða landið og um varnir gegn landbroti á vegum Landgræðslunnar.

Í síðari hluta heimsóknarinnar heimsótti  ráðherra stjórn og starfsfólk Vesturlandsskóga
þar sem ráðherra var kynnt starfsemi Vesturlandsskóga á Hvanneyri. Að loknum
fundi og  hádegisverði á Hvanneyri var farið í heimsókn til Jóns í Deildartungu og skógræktin þar  skoðuð. Þá var komið við  í Reykholti þar sem séra Geir Waage tók á móti
hópnum og formaður skógræktarfélags Borgarfjarðar, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, fylgdi gestunum um Reykholtsskóg. Heimsókninni lauk með skógargöngu um  skógarlönd  Steindórsstaðabænda þeirra Guðfinnu Guðnadóttur og Þórarins Skúlasonar. Að lokinni göngu nutu gestirnir veitinga hjá Guðfinnu  í gamla húsinu á Steindórsstöðum,  sem hefur verið endurbyggt  til að hýsa  ferðamenn..

This entry was posted in Fréttir. Bookmark the permalink.

Comments are closed.