Ýmis fróðleikur

Skilyrði fyrir ræktun samfelldra skóga

 • Lögbýli
 • Minnst 25 hektara skógræktarsvæði
 • Undirritaður, þinglýstur samningur

Vesturlandsskógar standa undir 97% af viðurkenndum kostnaði við stofnsetningu skógarins, þ.m.t.
Ræktunaráætlun – plöntur – áburð – vinnu við gróðursetningu og áburðargjöf – stofnkostnað við girðingu (miðast við rafgirðingu) – viðhald girðingar – gerð nauðsynlegra vegaslóða.

Skilyrði fyrir ræktun skjólbelta

 • Lögbýli
 • Minnst 2,5 km belti (miðast við einfalda röð)
 • Undirritaður samningur

Vesturlandsskógar útvega:
Ræktunaráætlun – plastdúk og vél til plastlagningar – plöntur og stiklinga

Bóndinn sér um alla vinnu og greiðir fyrir vinnu við plastlagningu og girðingar.

Nokkrar lykildagsetningar

 1. Vorgróðursetning getur hafist um leið og frost er farið úr jörð og plöntur hafa verið afhendar frá framleiðanda.
 2. Þegar gróðursetningu er lokið, skal bóndi tilkynna það til svæðisstjóra, sem kemur og tekur út verkið.
 3. Framkvæmdaskráning vegna vorgróðursetningar þarf að vera komin inn á borð Vesturlandsskóga fyrir 15. júlí, ef bóndi vill fá uppgjör á fyrri helmingi vsk árs.
 4. Haustgróðursetning getur alla jafna hafist um miðjan ágúst og getur staðið fram í frost.
 5. Þegar gróðursetningu er lokið, skal bóndi tilkynna það til svæðisstjóra, sem kemur og tekur út verkið.
 6. Framkvæmdarskráning vegna haustgróðursetningar þarf að hafa borist  fyrir 15. nóvember.
 7. Áætlun skógarbónda um plöntufjölda, jarðvinnslu og plastlagningu fyrir næsta ár þarf að hafa borist í síðasta lagi 1.mars.

Eyðublöð fyrir framkvæmdarskráningar og áætlunarblöð er að finna hér á heimasíðunni undir liðnum eyðublöð, ásamt leiðbeiningum um útfyllingu þeirra.

Um Vesturlandsskóga

Vesturlandsskógar voru stofnsettir í ársbyrjun 2000, á grundvelli laga um landshlutabundin skógræktarverkefni nr. 56 frá því í mars 1999( http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999056.html ). Áður hafði Skógrækt ríkisins stutt bændur til skógræktar í landshlutanum. Það var þó eingöngu gert á svæðum, sem talin voru bjóða uppá hvað best skógræktarskilyrði, þ.e. í innanverðum Hvalfirði og Borgarfjarðardölum til og með Reykholtsdals. Með stofnsetningu Vesturlandsskóga víkkaði svæði það, sem talið er henta til skógræktar og nær nú til alls láglendis í landshlutanum, frá og með hinni fornu Kjósarsýslu og að Gilsfjarðarbotni.

Ný lög  um landshlutabundin skógræktarverkefni voru samþykkt 2006. Lög nr. 95 frá 2006.

 

Eins og nærri má geta eru skógræktarskilyrði æði misjöfn á svæðinu. Sums staðar eru þau ekki nógu góð til að ná megi fjögurra teningsmetra meðalviðarvexti á ha á ári. Á slíkum stöðum er markmið skógræktarinnar hvers kyns landbætur, annars timburnytjar. Úti við ströndina er ekki talið ráðlegt að reyna skógrækt hærra en í 200 m hæð yfir sjó. Inn til landsins má víða finna þokkaleg skógræktarskilyrði upp í liðlega 300 m hæð yfir sjó.

Lágmarksstærð svæðis, sem samið er um til fjölnytjaskógræktar (timbur- og/eða landbótaskógræktar) í samstarfi við Vesturlandsskóga, er 25 ha og sjá Vesturlandsskógar um gerð ræktunaráætlana. Einnig er fyrirætlunin kynnt Fornleifavernd ríkisins og náttúrustofu landshlutans, svo þessir aðilar megi vara okkur við, ef líkur eru á að skógrækt á hverjum stað geti skemmt fornminjar eða náttúruundur.

Vesturlandsskógar styðja bændur einnig til skjólbeltaræktar. Skjólbeltarækt er eingöngu hægt að stunda á véltæku (ræktanlegu) landi, enda eru plæging, dreifing búfjáráburðar í flagið og tæting, auk plastlagningar allt saman nauðsynlegur undanfari ræktunarinnar. Vesturlandsskógar sjá um gerð ræktunaráætlana fyrir skjólbeltræktina og greiða plastdúkinn, vélavinnu við lagningu hans og plöntur/stiklinga í beltin en bændur sjá um friðun, jarðvinnslu, búfjáráburð, aðstoða við plastlagninguna, sem og gróðursetja og sjá um hirðingu beltanna.

Þótt Vesturlandsskógar séu byggðaverkefni, hefur ekki verið talin ástæða til að mismuna áhugasömum þátttakendum eftir búsetu. Stjórn Vesturlandsskóga hefur talið, að hver svo sem heimilisfesti manna sé, muni hverskyns starfsemi á jörðum dreifbýlisins koma viðkomandi héraði til góða á ýmsan hátt. Engu að síður eru um 80% þeirra, sem byrjað hafa samstarf við Vesturlandsskóga, búsettir á jörðum sínum. Nokkrir sem ekki voru búsettir á jörðum sínum, hafa síðar flutt lögheimili sitt þangað. Annars fer það eftir tímasetningu umsókna, hve fljótt er reynt að koma til móts við þær, auk þess sem sumir eru ekki tilbúnir, þegar til á að taka og færast þá að sjálfsögðu aftar í röðina.

Fjöldi og dreifing þátttakenda

Í lok árs 2010 var búið að gera samninga við 107 bændur í nytjaskógrækt, á 9328  hekturum. Er  skiptingin á milli svæða, sem hér segir:
50  samningar   í Borgarbyggð og Skorradal á 4588 ha
32  samningar   í Dalabyggð á 3081 ha
4  samningar í Kjósasýslu á 161 ha
11   samningar á Snæfellsnesi á 557 ha.
10 samningar í Hvalfjarðarsveit á 907 ha

Í árslok 2010 höfðu verið gerðir 132 skjólbeltasamningar við bændur á Vesturlandi.
Í árslok 2010 var búið að gróðursetja 5.710.816 plöntur á svæði Vesturlandsskóga og planta í 263 km af skjólbeltum.

Notkun áætlunar – ýmsar upplýsingar

Ræktunaráætlun er tæki skógarbóndans og Vesturlandsskóga til að auðvelda skipulagningu framkvæmda. Hún á að segja til um, hvar rétt sé að hefja skógræktina og hvaða aðferðum skuli beitt á hverju svæði. Hún er einnig hjálpleg, þegar þörfin fyrir plöntuframleiðslu er áætluð nokkur ár fram í tímann.

Ræktunaráætlunin er tillaga fagmanna í skógrækt, gerð á ákveðnum tíma, á grundvelli þess sem þá er best vitað og – að höfðu samráði við skógarbónda. Ýmislegt getur orðið til þess að breyta þurfi út af áætluninni. Breytingarnar verða að eiga sér rökstudda ástæðu. T.d. getur ný vitneskja úr rannsóknum eða ný reynsla valdið því, að það sem talið var best þokar um set fyrir öðru. Mikilvægt er að bóndi breyti ekki í blóra við áætlunina, nema hafa um það samráð við Vesturlandsskóga.

Starfsmenn Vesturlandsskóga eru boðnir og búnir að leiðbeina mönnum, ef eitthvað þykir  óljóst í áætluninni.

Framræsla

Nú er framræsla að mestu úr sögunni. Ástæðan fyrir því eru áhyggjur manna af þeirri hættu sem fuglalífi geti stafað af frekari framræslu á Íslandi. Stjórn Vesturlandsskóga ákvað haustið 2001 að veita ekki styrki til framræslu. Raunar eru ekki heldur veittir styrkir til að gróðursetja í land, þótt framræst hafi verið á kostnað landeiganda eftir að samningur var gerður við skógabónda. Á þessu eru þó undantekningar: Nýja skurði er aðeins hægt að réttlæta við skógrækt í samstarfi við Vesturlandsskóga, ef þeir eru nauðsynlegur þáttur í að komast með vélar á milli gróðursetningarsvæða. Eins er “lögmæt” ástæða, ef hressa þarf uppá framræslu með kíl- eða lokræsaplógi, þar sem skurðakerfi er til staðar en framræsla ófullnægjandi. Sömuleiðis er upphreinsun skurða lögmæt ástæða framræslu. Framræslan sjálf nýtur hins vegar ekki – jafnvel í þessum tilvikum – fjárhagslegs stuðnings Vesturlandsskóga.

Til þess að trjáplöntur þrífist, þarf að vera nóg súrefni í jörðu. Í óframræstri mýri vantar súrefni í jarðveg. Skógur getur ekki þrifist við slíkar aðstæður. Jafnvel öspin þarf að hafa a.m.k. 30 cm niður á kyrrstætt grunnvatn lungann úr vaxtartímanum, eigi hún að ná þroska. Því er fráleitt hægt – en útbreiddur misskilningur – að þurrka upp mýri með því að gróðursetja í hana trjáplöntur – jafnvel þótt um ösp sé að ræða. Hins vegar ætti ekki að þurfa að hreinsa uppúr skurðum, meðan skógur er að vaxa upp á mýri, sem hefur verið ræst fyrir gróðursetningu. Eins geta mýrar þornað, ef skógur vex upp, þar sem áður voru ber holt umhverfis þær. Stór hluti þeirra mýra, sem nú eru á Íslandi, voru skógi vaxnar við landnám, þ.e.a.s. meðan holtin kringum þær voru einnig skógi vaxin.

Slóðagerð

Á stórum samfelldum skógræktarsvæðum er nauðsynlegt að laga til fyrir vélar og útbúa slóða. Þetta er nauðsynlegt til að komast megi um svæðið á bærilegan hátt með plöntur. Umdeilt er, hversu þétt slóðar þessir þurfi að liggja. Vilja sumir meina að hvergi megi vera meira en fimmtíu metrar í næsta slóða og ætla að nota þá við grisjunarstörf. Þegar hugsað er fram á veginn, má hins vegar leiða líkur að því, að slíkir slóðar eða brautir, sem ekki hefur verið gróðursett í, verði með tímanum ófærir, vegna þess að greinar trjánna vaxa út yfir þá og loka þeim. Jafnframt verða trén, sem upp vaxa meðfram slóðunum, greinameiri en ella og timbrið úr þeim sem því nemur lakara. Gagnið, sem hafa átti af slóðunum við grisjun, verður minna en ekkert, enda þeir orðnir ófærir, þegar grisjun skal hefja. Betra er að huga aðeins að gerð svokallaðra stofnbrauta til að komast um landið til eftirlits, en hugsa ekki fyrir þörfum grisjunarvinnunnar með frekari slóðagerð strax við stofnsetningu skógarins. Þegar þar að kemur, eftir 40-50 ár, að grisja þarf skóginn, má nærri geta, hve miklu auðveldara verður að fara um hann með tækjum, sé t.d. ein röð trjáa höggvin í samvöxnum skógi, miðað við hvernig er að komast eftir fornum brautum, sem lokast hafa með grófum trjágreinum. Í þéttum skógi á grisjunarstigi eru allar greinar tiltölulega smáar eða alveg dauðar langt upp eftir stofnum trjánna. Slíkar greinar munu ekki trufla umferð véla. Því er hér mælt með, að menn geri aðeins bráðabirgðabrautir fyrir þarfir gróðursetningar og áburðargjafar, en gróðursetji að lokum einnig í þessar brautir. Stofnbrautirnar skyldu menn hins vegar leggja þannig, að þær geti í framtíðinni orðið nothæf stæði vegs fyrir stóra flutningabíla. Þannig má brattinn ekki vera of mikill, t.d. ekki yfir 14% og beygjuradíus þarf að ná ákveðnu lágmarki. Slík skipulagning (án fjölda “brauta”) mun  gefa vænni skóga til útivistar: Eða hvernig skyldi fólk upplifa skóg, sem er eins og skákborð í laginu, lagður brautum þvers og kruss með 100 m millibili? Telja verður keppikefli, að skógarnir okkar verði ekki aðeins timburframleiðendur, heldur líka til prýði í landslagi og yndis við útivist. Ekki spillir, ef hægt er að sameina þessi þrjú markmið!

Jarðvinnsla

Orðið “jarðvinnsla” er hér notað um ýmiskonar vélrænan undirbúning gróðursetningar, en ekki eingöngu plægingu og tætingu eða herfingu. Jarðvinnsla vegna skógræktar felur þannig sjaldnast í sér jafnmikla umbyltingu jarðvegs og þegar land er brotið til túnræktar eða akuryrkju. T.d. er tæplega hægt að kalla vélflekkingu, sem er algengasta “jarðvinnslan” við skógrækt á Vesturlandi, raunverulega jarðvinnslu.

Tilgangur jarðvinnslu fyrir skógrækt er einkum:

 1. Að draga úr samkeppni við annan gróður.
 2. Að hækka jarðvegshita.
 3. Að draga úr næturfrostahættu.
 4. Að skapa nærskjól.
 5. Að auka niðurbrot lífrænna leifa og bæta með því næringarstig jarðvegsins.

Jarðvinnsla er því einkum notuð þar sem jörð er vel gróin en yfirleitt alls ekki á illa grónu landi. Rannsóknir undanfarinna ára benda samt til þess, að jafnvel á melum eða áraurum geti plæging bætt árangur skógræktar verulega, sennilega vegna þess að hún eykur súrefni í jarðvegi. Kannski kemur að því, að einhvers konar plægingu verði að jafnaði beitt á slíku landi, sé það á annað borð véltækt.

Vélflekking / TTS-herfing

Báðar aðferðir fela í sér, að svarðlaginu er flett ofan af. Við TTS-herfingu gerir tækið tvær samsíða rásir ca. 50 cm breiðar. Flekkjarinn eða skógarstjarnan útbýr líka flekki í tveimur samhliða röðum) en skilur eftir óhreyft land á milli. TTS-herfi og flekkjari eru álíka afkastamikil tæki. Við höfum aðgang að flekkjara hér á Vesturlandi og því eðlilegt, að sú aðferð verði meira notuð í landshlutanum á næstu árum en TTS-herfing.

Land, sem hentar fyrir þessa gerð jarðvinnslu, getur verið allt frá mosaþembu og lyngmóa til grasmóa og framræstra mýra. Ekki ætti að vera mikil hætta á vatnsrofi út frá vélflekkingu, þar sem hún myndar ekki samfelldar rásir.

Plæging

Þessi aðferð er einkum notuð á framræstri mýri og öðru grasgefnu landi. Plæging gefur auk þess plöntunum betra skjól en flekkingin fyrstu árin eftir gróðursetningu. Því ætti hún að henta sérlega vel, þar sem búast má við mjög hörðum veðrum, t.d. á sunnanverðu Snæfellsnesi, á Kjalarnesi og nálægt Hafnarfjalli og Skarðsheiði.

Við jarðvinnslu skal hafa í huga að:

 1. Varast vatnsrof, aldrei að plægja of bratt undan halla.
 2. Að leitast við að skapa sem best skjól, með því t.d. að færa plógstrenginn upp á móti hörðustu vindátt.
 3. Að fylgja sem best landslaginu, s.s. utan í brekkum, kringum hóla og hæðir og samsíða vegum. Þannig verða raðirnar síður áberandi.
 4. Frostlyfting getur verið skæður vágestur í berri mold. Því er best að gróðursetja sem fyrst á vorin í unnið land, bera á strax eftir gróðursetningu og jafnvel sá höfrum eða rýgresi í litlum mæli umhverfis plönturnar. Notkun lífræns áburðar eins og kjötmjöls eða þurrs búfjáráburðar er einnig ágæt vörn gegn frostlyftingu.
 5. Í graslendi, þar sem snarrót er ríkjandi, er vissara að nota stórar plöntur, t.d. tveggja eða jafnvel þriggja ára plöntur úr 150 cm3 eða stærri hólfum. Öðrum kosti má búast við, að þrátt fyrir jarðvinnsluna verði talsverð eða mikil afföll í plöntum vegna frekju snarrótarinnar.

Áburðargjöf

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt, að áburðargjöf strax eftir gróðursetningu dregur alla jafna verulega úr afföllum og styttir þann tíma, sem vöxtur plantna staðnar í kjölfar gróðursetningar. Þó er varhugavert að bera áburð strax eftir gróðursetningu í kringum plöntur, þar sem handflekkjað hefur verið í grasgefnu landi. Allar þær tegundir, sem við notum mest til skógræktar, hagnast annars af áburðargjöfinni en viðbrögð tegundanna eru engu að síður nokkuð misjöfn.

Of stór áburðarskammtur getur hreinlega drepið ungar plöntur. Stafar það af því, að saltstyrkurinn eykst í jarðvegi og plönturnar ná ekki upp vatni í nægum mæli. Köfnunarefnið (N) er auðleystast efna í áburðinum. Því er ráðlegt að nota ekki áburð með háu köfnunarefnishlutfalli. Blákorn inniheldur aðeins 12% N, en auk þess önnur áburðarefni, þ.m.t. snefilefni. Því er ráð að nota blákorn við fyrstu áburðargjöf. “Gróska” inniheldur blöndu af sein- og auðleystu N. Tilraunir sýna ekki nógu mikinn mun á árangri af notkun “Grósku” miðað við blákorn, til að verjandi sé að nota fremur Gróskuna, þar sem hún er fjórfalt dýrari en blákorn. Hæfilegur skammtur fyrir hverja plöntu er ca. 10g. Skal áburðinum helst dreift sem jafnast á hringlaga flöt, sem nær ca. 15 cm út frá plöntunni.

Sitkagreni þolir ofurskammta af N betur en t.d. lerki. Þetta er rétt að hafa í huga og bera því heldur minna á lerki en hér var nefnt. Einnig hefur sýnt sig, að endurtekin áburðargjöf virðist ekki bæta þrif lerkisins, nema síður sé. Endurtekin áburðargjöf getur eflaust bætt vöxt sitkagrenisins langt fram eftir aldri, þ.e.a.s. ef landið er ekki þeim mun frjósamara. Hins vegar er síendurtekin áburðargjöf dýr, enda þarf að bera miklu meira á t.d. 5 ára plöntu en nýgróðursetta. Ekki duga minna en 100 g af tilbúnum áburði á 10 ára greniplöntu í rýru landi, eigi hún að bregðast vel við. Því er mikilvægt að setja ekki greni í rýrasta landið (nema ætlunin sé að nota lúpínu sem kolefnisgjafa), enda keppikefli að ræktunin sé sem sjálfbærust.

Tegund – kvæmi – klónar

Í dýraríkinu er algengast, að tegundir séu skilgreindar sem það safn einstaklinga sem æxlast getur saman og eignast frjó afkvæmi. Hvað trjátegundir varðar, eru skilin milli tegunda ekki alltaf svo glögg að þessi skilgreining eigi við. Þess eru dæmi, að einstaklingar ólíkra (en skyldra) trjátegunda geti æxlast saman og eignast frjó afkvæmi. Hverri tegund er skipt í undirhópa, kvæmi, sem eru sá hluti erfðaefnis tegundarinnar, sem kemur frá einhverju ákveðnu upprunasvæði. Reyndar er líka talað um kvæmi í merkingunni frætökustaður, jafnvel þótt móðurtrén séu upprunnin frá fjarlægum stöðum. Þannig er til sitkagreni af Tumastaðakvæmi, þótt upprunastaður móðurtrjánna sé Hveragerði og Hveragerðistrjánna aftur í Alaska.

Klónn er safn einstaklinga, sem allir hafa nákvæmlega eins erfðaeiginleika. Klónar eru framleiddir með einræktun, oftast stiklingafjölgun eða vefjarækt. Í náttúrunni er algengast að klónar myndist á annan hátt, t.d. með rótarskotum.

Rétt tegund á réttan stað
Þegar menn hafa áttað sig á, hvaða kvæmi (eða klónar) henti á því landsvæði, sem fyrirhugað er að rækta, þarf að hafa í huga, að sérhver tegund fari á réttan stað. Til að tryggja að staðarvalið verði í samræmi við eðli tegunda og markmið skógræktarinnar, er æskilegt, að gert sé kort af skógræktarlandinu, áður en ræktun hefst. Slík kort hafa verið unnin bæði hjá Skógrækt ríkisins og hjá Skógræktarfélagi Íslands. Hin nýju landshlutaverkefni í skógrækt eru nú í æ ríkari mæli farin að sinna þessu verkefni sjálf. Lykill að flokkun landsins í samræmi við skógræktarskilyrði fylgir með áætluninni, sem bændum er afhent.

Vart þarf að fjölyrða um mikilvægi tegundavals. Ótal dæmi má finna um gerólíkan vöxt t.d. sitkagrenis á einni og sömu landareign, eftir því hvort gróðursett var í frjósamt eða rýrt land. Vissulega má hjálpa þurftafrekri tegund á rýru landi með áburðargjöf. Þetta geta þeir gert, sem rækta upp lítil svæði eins og sumarbústaðalönd. Sökum þess hve margendurtekin áburðargjöf er kostnaðarsöm, ber að forðast að gróðursetja þurftafrekar  tegundir í stórum stíl í mjög rýrt land. Ef valdar eru aðrar (nægjusamari) tegundir í rýrt land en frjósamt, er einnig tryggð meiri fjölbreytni en ella í tegundavali. Þetta er öryggisatriði í skógrækt ekki síst, þegar verið er að gróðursetja tegundir, sem flestar hafa aðeins vaxið á Íslandi í eina til tvær kynslóðir. Sé aðeins notaðuð ein tegund við skógrækt  á stórum samfelldum svæðum eykst hættan á stóráföllum, bæði af völdum veðráttu og sjúkdóma.

Helstu trjátegundir

Á undanförnum 100 árum hefur fjöldi trjátegunda og kvæma verið prófaður hér á landi, margar í skógrækt en fleiri í trjárækt. Hefur smám saman safnast ný reynsla af fjölda trjátegunda á Íslandi. Í leit að efnivið sem best hentar aðstæðum hér á landi, hafa verið prófuð mörg kvæmi af flestum tegundanna. Margar þeirra hafa þegar sannað tilverurétt sinn með sjálfsáningu.  Hér á eftir verður lítillega fjallað um þær tegundir, sem  vænlegastar þykja til skógræktar á Vesturlandi.

lmbjörk (Betula pubescens). Birkið er jafnvel talið hafa þraukað á Íslandi yfir ísaldirnar. Það er harðger tegund, sem þolir vel vindálag og getur lifað í magurri jörð. Við slíkar aðstæður vex það hægt og verður því ekki stórvaxið. Birkið getur með tímanum aukið frjósemi jarðvegs. Það hentar vel sem landnemi og getur búið í haginn fyrir aðrar vaxtarmeiri og verðmætari tegundir. Hæstu tré í birkiskógum Íslands ná sjaldnast meira en 12 m hæð. Stórvöxnustu birkiskógar landsins eru allir á því austanverðu, þ.e. frá Fnjóskadal austur um og suður til Bæjarstaðar. Vestlenska birkið er af einhverjum ástæðum kræklótt og fremur lágvaxið. Hins vegar nær Bæjarstaðabirki að sýna svipaða takta á Vesturlandi og í heimkynnum sínum. Viðamikil kvæmatilraun með íslenskt birki var sett af stað á átta stöðum á landinu árið 1998. Ein þessara tilrauna er í Múlaskógi, norðan Selgils í Húsafelli.

Hengibjörk (vörtubirki), Betula pendula. Ættuð frá N-Evrópu. Mun stórvaxnari tegund en ilmbjörkin og gerir meiri jarðvegskröfur. Haustið 1994 mældist hengibjörk í gömlu gróðrarstöðinni á Akureyri liðlega 12 metra há. Hún nær um 30 m hæð í heimkynnum sínum í Norður-Evrópu.

Alaskaösp, Populus trichocarpa. Upprunnin frá vesturströnd N-Ameríku. Hraðvaxta landnemategund, sem þarf fremur frjóan jarðveg til að vaxa vel. Hæsta ösp á Íslandi (að Múlakoti í Fljótshlíð)  var 23,9 m haustið 2004, sjá nánar á eftirfarandi slóð: http://skogur.is/Apps/WebObjects/Skogur.woa/wa/dp?detail=1000768&id=1000027 Öspin nær mun meiri hæð í heimkynnum sínum. Mikilvæg tegund fyrir bæði timburskógrækt og skjólbeltarækt um land allt. Öspin hefur þann kost, að þegar hún er höggvin, sprettur úr grasi aragrúi rótarskota vítt um kring. Þarf því ekki að hafa mikið fyrir að endurnýja asparskóg. Nægir að grisja hann!

Gráelri, Alnus incana. Flutt hingað frá Norðurlöndum. Fyrst gróðursett í Múlakoti 1941. Landnemategund, sem miklar vonir eru bundnar við til landgræðslu vegna sambýlis elriróta við geislasveppi, sem binda nitur úr andrúmsloftinu. Hæsta tré: Í Mörkinni á Hallormsstað (gróðursett 1964), liðlega 11 m  vorið 1994. Nær allt að 20 m hæð í Skandinavíu. Enn hefur ekki tekist að ná nógu góðum tökum á framleiðslu elriplantna í gróðrarstöðvum hérlendis. Þrífst einkar vel meðfram lækjum, en er líka duglegt að klæða nýfallnar skriður í heimkynnum sínum. Gæti reynst notadrjúgt til landbótaskógræktar á Vesturlandi.

Sitkaelri, Alnus sinuata. Hávaxinn runni frá vesturströnd N-Ameríku. Hefur svipaða eiginleika og gráelrið en nær sjaldnast meira en 3 m hæð.

Ilmreynir, Sorbus aucuparia. Finnst hér og þar í skóglendi eða á ókleifum stöðum á Íslandi. Þó aldrei sem samfelld breiða, heldur sem stakstæð tré innan um birki. Reyniviður gerir álíka kröfur til sumarhita og íslenska birkið. Þetta er síðframvindu tegund, en birkið hins vegar landnemategund. Reyniviður er því afar skuggaþolinn og getur vaxið uppúr þéttu birkikjarri, sem jafnvel sauðkindin kemst illa um. Þessi eiginleiki kann að hafa bjargað tegundinni frá útrýmingu fyrir tíð gaddavírsins. Engin trjátegund (hérlend) er jafn vinsæll réttur hjá grasbítum. Ekki er gert ráð fyrir, að reyniviður verði gróðursettur í timburskóga á Vesturlandi. Þaðan af síður í landbótaskóga, enda þrífst tegundin illa á berangri. Hins vegar er hægt að nota sér skuggaþol hennar með eftirfarandi hætti: Reyniviður verði notaður í skjólbelti sem íbætur fyrir trjáplöntur, sem farið hafa forgörðum. Hann hentar trjáa best til íbóta sakir ótrúlegra hæfileika til að vaxa upp í gegnum litlar glufur, aðþrengdur af nábýli við önnur og stærri tré. Þannig yrði með tímanum töluvert af reyniviði í öllum skjóbeltum í landshlutanum, skógarþröstum til mikillar gleði. Þrestirnir eru sáðmenn guðs. Þeir munu sjá um að dreifa reyniviðnum um hina uppvaxandi skóga. Reyniviðurinn mun spretta upp úr flestum glufum í krónuþekjunni, en alltaf verður talsvert um slíkar glufur, enda langt því frá að allar gróðursettar plöntur lifi og verði tré.

Sitkagreni – sitkabastarður Picea sitchensis – Picea lutzii. Stórvaxin tegund, sem nær upp undir 100 m hæð í heimahögum sínum og þarf mikið rými. Sitkagrenitré í Elliðaárdal (gróðursett 1937 og 1944) voru orðin 20 m haustið 2001. Megnið af sitkagreni á Íslandi er upprunnið frá svæðum í Alaska, en þar er meiri eða minni kynblöndun sitkagrenis og hvítgrenis regla fremur en undantekning. Sitkagrenið gerir talsverðar kröfur til frjósemi jarðvegs. Á stöðum þar sem úrkoma er næg, vex það best allra barrtrjáa ef jarðvegsskilyrði eru hagstæð. Sitkabastarður er fremur notaður norðanlands en sunnan og annars staðar þar sem úrkoma er takmarkandi fyrir sitkagreni. Hann er einnig krónuminni.. Sitkalúsin hefur gert nokkurn skaða sum ár, en drepur sjaldan tréð. Hún getur hins vegar dregið úr vexti. Sitkagreni og sitkabastarður eru mikilvægar tegundir við ræktun timburskóga á Vesturlandi.

Hvítgreni Picea glauca. Vex í Kanada frá austur- til vesturstrandar. Á tiltölulega mjóu belti meðfram vesturströnd Kanada og Alaska leysir sitkagrenið hvítgrenið af hólmi og blandast því einnig. Á Hallormsstað var 43 ára tré orðið 11,3 m haustið 1994. Getur orðið allt að 35 m hátt í heimkynnum sínum. Þessi tegund hefur tiltölulega mjóa krónu. Í innsveitum á norðaustanverðu landinu er úrkoma víðast hvar of lítil fyrir sitkagrenið. Þar kjósa menn fremur að nota hvítgreni til skógræktar. Hugsanlega gæti tegundin hentað í þurrustu dalskorum á Vesturlandi. Gerir heldur minni kröfur til jarðvegsfrjósemi og -raka heldur en sitkagreni.

Blágreni Picea engelmannii. Háfjallatré, sem gerir jafnvel minni hitakröfur en birkið. Þrífst vel um allt land, en mest notað um norðanvert landið. Vinsælt sem jólatré. Blágrenið er með mjóa krónu, og hentar því vel í litla garða í þéttbýli. Þarf fremur frjósaman jarðveg.  Hæsta blágrenitré landsins í Mörkinni á Hallormsstað var orðið yfir sautján metrar vorið 1994. Nær mun meiri hæð í heimkynnum sínum, sem eru í fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku. Gerir svipaðar kröfur til jarðvegs og hvítgrenið. Hefur ekki mikla þýðingu fyrir ræktun timburskóga á Vesturlandi.

Rauðgreni Picea abies. Ættað frá norðurhluta Evrasíu. Flutt hingað til lands frá norðurhluta Noregs. Þrífst aðeins vel á skjólgóðum stöðum í innsveitum, þar sem jarðvegur er mjög frjór. Rauðgreni er skuggaþolið. Eftirsótt jólatré, ekki síst vegna ilmsins og í seinni tíð eingöngu ræktað til jólatrjáaframleiðslu. Yfirleitt með fremur mjóa krónu. Hæsta rauðgreni landsins (á Hallormsstað) var orðið yfir 16,7 m vorið 1998. Hefur ekki mikla þýðingu fyrir timbur- eða landbótaskógrækt á Vesturlandi.

Stafafura, Pinus contorta. Upprunnin frá vesturströnd N-Ameríku. Svíar telja, að stafafuran þrífist betur, þar sem stutt er niður á jökulruðning en í þungum (leirkenndum) jarðvegi. Hefur reynst viðkvæm fyrir vindálagi, einkum á yngri árum. Vinsælt jólatré, ekki síst vegna ilmsins og frábærrar barrheldni. Ein aðaltegundin í nytjaskógrækt á bújörðum. Hæsta stafafura landsins (á Hallormsstað, gróðursett 1941) var tæpir 17,7 vorið 1999, en tæpir 12 metrar í Skorradal (gróðursett 1954). Í heimkynnum sínum nær hún allt að 50 m hæð inni í landi. Strandafbrigðið er mun smávaxnara og nær sjaldnast meira en 15 m hæð. Sú fura, sem mest hefur verið ræktuð hér, er frá Skagway og verður að teljast meira strand- en innlandskvæmi. Stafafuran hefur óvíða þrifist betur á Íslandi en í dölum Borgarfjarðar. Hún er ein hinna mikilvægari tegunda til timbur- og landbótaskógræktar í landshlutanum og er ætluð á rýrt land. Hún þolir bæði hálfdeigju og þurran jarðveg betur en flestar aðrar tegundir, þ.e.a.s. er sveigjanleg í kröfum til jarðvegsraka. Þolir illa mikið vindálag.

Lindifura, Pinus cembra. Ættuð frá Síberíu, en er einnig á takmörkuðu útbreiðslusvæði í Mið-Evrópu. Hefur þrifist afbragðsvel, t.d. í Hallormsstaðaskógi og á Þingvöllum. Er svokölluð fimm-nála-fura, þ.e. jafnan eru fimm nálar í knippi, en ekki tvær til þrjár eins og t.d. hjá skógarfuru og stafafuru. Er afar seinvaxin í æsku en herðir svo á vextinum. Lindifurutrtrén í Mörkinni á Hallormsstað eru að flestra dómi með fegurstu trjám í öllum skóginum. Krónan er nokkuð jafn breið frá jörðu og uppundir topp og þétt með lifandi greinum alveg niður að jörð, þótt hún vaxi innan um birki. Barrið er dökkgrænt og nálarnar langar. Síberísk kvæmi geta náð allt að 40 m hæð í heimkynnum sínum, en Mið-Evrópukvæmið er mun smávaxnara. Í Síberíu hafa verið reist heilsuhæli í lindifuruskógum, þar sem loftið er þar talið heilnæmt fyrir brjóstveikt fólk. Fræin eru risastórar og hinar gómsætustu hnetur. Hefur lítið verið gróðursett á undanförnum áratugum, en þyrfti að prófa betur og víðar en hingað til – einnig á Vesturlandi. Hentar sennilega best í miðlungsfrjóan, fremur rakan jarðveg.

Síberíulerki Larix sibirica. Útbreiðslusvæði frá Arkangelskhéraði í N-Rússlandi og langt austur í Síberíu. Oft eru kvæmi ættuð vestan Úralfjalla flokkuð sem sérstök tegund og þá kölluð “rússalerki”. Var gróðursett fyrst hér á landi 1922. Hæsta lerkitré á Íslandi um aldamótin síðustu var síberíulerki í Guðrúnarlundi í Hallormsstaðaskógi 21,0 m. Í heimkynnum sínum nær lerki gjarnan 30-40 m hæð. Hin seinni árin hafa alls kyns sveppapestir ógnað tilverurétti tegundarinnar sums staðar á landinu. Einkum á þetta við um hin síberísku kvæmi, meðan þau sem ættuð eru vestast af útbreiðslusvæðinu hafa reynst betur. Lerkið vex mun betur en birki á þurru og mögru landi inn til landsins, einnig hér vestanlands. Ætti það að geta myndað skjól fyrir aðrar tegundir, jafnframt því sem það bætir jarðveg á rýru landi ótrúlega fljótt. Síberíulerki er því mikilvæg tegund fyrir timburskógrækt og landbótaskógrækt í innsveitum vestanlands, en rétt kvæmaval afarmikilvægt. Þrífst illa í deiglendi. Ef rétt reynist, að loftslag muni fara hlýnandi á næstu áratugum og þá einkum á veturna, geta skilyrði versnað til ræktunar tegundarinnar. Tilraunir eru hafnar hjá Skógrækt ríkisins með notkun tegundablendinga í stað síberíulerkis.

Fjallaþinur Abies lasiocarpa. Ættaður úr vestanverðri N-Ameríku. Háfjallategund með granna krónu. Þrífst vel víðast hvar á landinu. Sérlega skuggaþolinn. Eftirsóttur í jólatré. Viðurinn þykir hins vegar lítils virði. Helst ræktaður vegna jólatrjánna, sem eru ilmrík og standa vel. Hæsta tré þessarar tegundar hér á landi var gróðursett 1909 í Mörkinni á Hallormssstað – 15,9 m haustið 1994. Sverast allra trjáa á Íslandi er fjallaþinur á sama stað 65 cm í þvermál vorið 1991. Nær 20-30 m hæð í heimkynnum sínum. Hentar aðeins sem skrauttré eða í jólatrjáarækt.

Douglasgreni Pseudotsuga menziesii. Á Hallormsstað er til afar stæðilegt stóð af douglasgreni sem sennilega er frá Mt. Rainier í Washingtonfylki. Var hæsta tréð þar 16.9 m vorið 1999. Á Mógilsá á Kjalarnesi eru mjög efnileg tré þessarar tegundar af fræi frá Kaupangi í Sognfirði en upprunnin frá nyrsta hluta úbreiðslusvæðisins í N-Ameríku. Mikil vinna er eftir við frekari prófanir á fleiri kvæmum þessarar tegundar, áður en hún getur orðið vænleg til timburframleiðslu hérlendis. Enda er mikill munur á kvæmum á víðáttumiklu úbreiðslusvæði douglasgrenis í Norður-Ameríku. Innan fárra ára kemur í ljós, hvort kvæmið frá Kaupangi henti þokkalega á Vesturlandi. Þá gæti tegundin orðið okkur mikilvæg. Fáar eða engar tegundir barrskógabeltisins gefa jafneftirsótt timbur og douglasgrenið, sem kallast í byggingariðnaði “Oregon pine”. Þarf fremur frjósaman jarðveg eins og oftast er að finna við brekkurætur eða neðst í fjallshlíðum.

Fleiri en ein tegund í sama reit!

Árið 1963 var veður óvenju milt allt frá byrjun febrúarmánaðar, t.d. aldrei umtalsvert frost á sunnanverðu landinu. Reyndar var veturinn 1964 frá áramótum ennþá hlýrri en árið 1963. Það sem gerði gæfumuninn var hins vegar að 1963 brast hann á með norðan veðri um land allt þann 9. apríl og fór frost víðast hvar í meira en 10 gráður. Þetta var semsagt óvenju kalt og hart veður miðað við árstíma. Þegar þetta gerðist voru brumin á sitkagreni/bastarði, blágreni og síberíulerki farin að springa út á sunnanverðu landinu, einkum í lágsveitum. Eins var alaskaöspin byrjuð að laufgast. Mikið drapst af ofangreindum tegundum í hreti þessu og aðrar plöntur kól illa. Þótt skemmdar plöntur hjöruðu áfram og næðu sér á strik með tímanum, seinkaði þroska þeirra verulega.

Ekkert svipað þessum atburði (að saman fari jafnlangur hlýindakafli að vetri og jafnhart vorhret) hefur gerst frá því að veðurmælingar hófust í landinu fyrir liðlega 150 árum. Engu að síður horfa skógræktarmenn til ársins 1963 með nokkrum hryllingi og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig. Þetta gerum við t.d. með því að gæta þess, að alla jafna séu a.m.k. tvær trjátegundir í einum og sama reit innan skógræktarsvæðis. Talið er líklegt, að þannig megi draga úr sjúkdóma- og skordýraplágum, en auk þess stæði alltaf einhver skógur eftir, ef allt færi á versta veg.

Hvernig er tegundunum skipt í reitinn?

Ekki er nóg að vita, hversu margar plöntur eigi að vera af hverri tegund í viðkomandi reit. Við þurfum einnig að vita, með hvaða hætti tegundunum skuli skipað til sætis. Eigum við t.d. að setja eina tegund í hverja röð og hafa þannig 3 raðir af SG fyrir hverja eina af AÖ, ef meiningin er að hafa hlutföll þessara tveggja tegunda í reitnum 3 SG : 1 AÖ ?  Svarið er: Ekki nauðsynlega, og raunar helst ekki. Frá sjónarmiði ásýndar skógarins væri betra að skipa tegundunum niður með óreglulegum hætti og alls ekki eftir röðum.

Stundum er land mjög einsleit í öllum reitnum, t.d. í framræstum mýrum. Þá getur maður verið með stiklingaknippi með alaskaösp í poka við aðra mjöðmina, en bakka með sitkagreni við hina. Síðan myndi maður reyna að setja til skiptis ösp og greni í þeim hlutföllum, sem áætlunin gerir ráð fyrir.

Hitt er ekki síður algengt, að innan sama reits skiptist á misjafnlega frjósamt land eða misjafnlega þurrt land. Þessar einingar mynda smáa “undirreitir” líkt og óreglulegt mósaík, sem náttúran hefur með einhverjum hætti lagt grunn að. Við slíkar aðstæður er rétt að velja tegundunum stað eftir aðstæðum. Í ófrjótt land færi t.d. stafafura í rakari blettina en lerki í hina þurrari. Birki væri gjarnan sett, þar sem mest er áveðurs. Í frjósamara landið væri ösp sett meðfram lækjarsytrum, en greni annars staðar, kannski með “ísprengdri” blöndu af ösp (eða hengibjörk).

Gróðursetningarbil

Allajafna er gert ráð fyrir, að gróðursett sé með 2 m millibili, með þeirri undantekningu, að í bletti, sem eingöngu er sett í stafafura, sé gróðursett nokkru þéttar – eða með ca. 1,5 m millibili.

Ræktunaráætlunin tilgreinir, hvaða tegundir skuli gróðursetja í hvern reit, í hvaða hlutföllum og hversu þétt. Þéttleikinn er tilgreindur sem fjöldi plantna á ha. Með því að deila 10.000 með heildarfjölda plantna (allra tegunda, sem setja skal í viðkomandi reit) fæst sá fermetrafjöldi sem hver planta hefur til umráða að meðaltali. Margfeldi lengdar og breiddar milli plantna skal þá vera fjórir.

Dæmi 1: Lagt er til að settar séu 1000 plöntur af ilmbjörk og 1500 plöntur af stafafuru á hvern ha. Alls eru þetta 2.500 plöntur. 10.000 (fermetrar) : 2.500 = 4   þ.e. hver planta fær til ráðstöfunar fjóra fermetra. Sé bilið milli raða 2m er því ljóst, að bilið milli plantna innan raðar skal vera: 2m  (4 : 2 = 2).

Dæmi 2: Alls fara 2.500 plöntur á ha. Eins og í fyrra dæminu hefur þá hver plantna til ráðstöfunar fjóra fermetra. Í þessu tilviki var plægt (eða flekkjað) með 2,5 metra millibili. Bil milli plantna innan raðar skal þá vera: 4 : 2,5 = 1,6 m.

Varsla plantna sem bíða gróðursetningar

Mikill munur á afdrifum ungplantna eftir gróðursetningu á oftar en ekki rætur að rekja til þess, hvernig staðið var að verki við sjálfa gróðursetninguna. Einnig til þess hvernig plöntur eru meðhöndlaðar, á meðan þær bíða gróðursetningar. Auðvitað þurfa plöntur líka að vera í góðu ástandi frá framleiðandanum. Hér verður aðeins stiklað á stóru og nefnd nokkur atriði, sem nauðsynlegt er að höfð séu í huga við gróðursetningu, eigi árangur að verða viðunandi. Fyrst skal nefna nokkur atriði um meðhöndlun plantna, sem bíða gróðursetningar:

Af ýmsu þarf að huga meðan plöntur bíða gróðursetningar:

 1. Að þær séu vökvaðar hæfilega.
 2. Að þær fái hæfilega mikla næringu.
 3. Að þær séu á hepplegu undirlagi.
 4. Að þær fái næga birtu.
 5. Að fénaður komist ekki í plönturnar.
 1. Ein leið til að finna út hvort vökva þurfi plöntur er sú að kippa upp nokkrum plöntum, þreifa á rótartappanum og meta rakastig hans. Önnur leið er að vigta bakka og vökva, þegar hann hefur tapað ákveðnum hluta af heildarþyngd, eins og hún var, meðan plöntutapparnir voru mettaðar af raka. Fyrri aðferðin er einfaldari, en krefst þess, að menn hafi tilfinningu fyrir, því hvað sé hæfilega þurr rótartappi til að tímabært sé að vökva. Mikilvægt er að hafa hugfast, að plöntur skal vökva svo vel, þegar þær á annað borð eru vökvaðar, að ræktunarmoldin/rótartappinn verði mettaður af raka. Nauðsynlegt er að vökva oftar yst í bakkabreiðu en innar í henni, þar eð plöntur þorna miklu fyrr í jöðrunum. Í hlýju veðri með sólfari og vindi getur þurft að vökva daglega í útjaðri, þótt nóg sé að vökva annan eða þriðja hvern dag inni í breiðunni. Einhver kann að spyrja: Er ekki best að hafa vaðið fyrir neðan sig og vökva allt heila klabbið nógu oft og nógu mikið? Svarið er nei og aftur nei. Of tíð vökvun stóreykur hættu á sveppasýkingum. Því á ekki að vökva plöntur fyrr en tappinn er orðinn nokkuð þurr, þó ekki svo þurr að hann hrindi nánast frá sér vatni við vökvun. Auk þess er vert að hafa hugfast, að vatn skolar áburðarefnum skilvíslega niður úr rótartappanum, þannig að yfirdrifin vökvun stuðlar alla jafna einnig að næringarskorti. Rótin þarf auk þess súrefni. Sé rótartappinn jafnan mettaður af raka, deyr rótin vegna súrefnisskorts.
 2. Næringuna er best að færa plöntunum með því að dreifa yfir bakkabreiðuna, eins jafnt og kostur er, ríflegum túnskammti af tilbúnum áburði (t.d. blákorni). Hvers vegna ekki að nota uppleystan áburð? Hann skilar sér vissulega fyrr sem næring fyrir viðkomandi plöntu. Hins vegar er ekki  auðvelt að stjórna áburðargjöfinni utanhúss, sé notaður uppleystur áburður. Slíkur áburður skolast nefnilega rakleiðis út úr plöntutappanum í góðri rigningarskúr! Kornin geta hins vegar verið að gefa frá sér næringu fram eftir öllu sumri – en skemur ef mikið rignir. Ekki er hætta á að áburðurinn brenni hina grænu hluta plantnanna, sé þess gætt að plönturnar séu þurrar á ytra borði, þegar áburðinum er dreift. Þótt plöntur fari fljótlega út til gróðursetningar, hanga áburðarkornin á þeim og fylgja með við gróðursetningu. Með þessu móti verður frekari áburðargjöf óþörf, a.m.k. þegar gróðursett er í land, sem hefur verið handflekkjað. Öðru máli gegnir um land, sem er vélflekkjað. Í slíku landi er æskilegt að bera líka áburð í kringum plönturnar sem fyrst eftir gróðursetningu, svo þær fái sem best skilyrði til að dafna og rótfesta sig.
 3. Undirlag bakka, sem bíða gróðursetningar, þarf að vera gróft. Fínn sandur eða mold henta illa, því ræturnar vaxa rakleiðis niður í slíkt undirlag. Rætur, sem þannig haga sér, koma plöntunni að engu gagni eftir gróðursetningu, enda drepast þær áður en  plantan kemst í jörð! Best er að bakkarnir standi á möl – eða ennþá betra – á grindum þ.e.a.s. þannig að lofti undir þá. Undirlagið skiptir hins vegar litlu máli ef plöntur bíða gróðursetningar aðeins dagspart eða fáeina daga
 4. Ekki er ráðlegt að geyma plöntur í útihúsum eða undir laufþaki gamalla trjáa langt fram á vor. Plönturnar þurfa alla þá birtu, sem hægt er að bjóða þeim. Tveir sólarhringar í algjöru myrkri en við hitastig verulega yfir frostmarki, t.d. við flutning plantna, dregur úr þrótti þeirra. Líði lengri tími í myrkri og við tiltölulega hátt hitastig, fer þróttleysi að leiða til verulegra vandræða eftir gróðursetningu.
 5. Skepnur geta tínt plöntur uppúr bökkum og jafnvel étið toppa. Því þarf að geyma plöntur, þar sem skepnur ná ekki að næra sig á þeim eða hafa þær að leiksoppi.

Gróðursetning

Þétta þarf með plöntunni: mikilvægt er að plantan sé ekki laus (í holu sinni) eftir gróðursetningu. Þetta er tryggt með því að holan er höfð aðeins dýpri en plöntutappinn. Tappanum er þrýst þéttingsfast ofan í holuna og jarðvegi ýtt með þumalfingri að og yfir rótartappann, svo hvergi sjáist í yfirborð hans. Þessar aðgerðir tryggja, að plantan þornar ekki eftir gróðursetningu í venjulegu gróðursetningarlandi. Sé notuð geispa þarf að þjappa vel að plöntunni með fætinum. Ekki er mikil hætta á að þjöppun verði of mikil, enda er tímafrekt að standa og þjappa margsinnis að plöntunni með hælnum. Þjöppun getur  fræðilega séð orðið of mikil, sem lýsir sér í súrefniskorti í jarðveginum umhverfis rótarkerfið. Ath: Svo kann að virðast að gróðursetningin verði svo tímafrek, ef farið er að öllum þessum grundvallarreglum, að fáar plöntur fari í jörð á degi hverjum. Hafa skal í huga að æfingin skapar meistarann. Þótt menn setji aðeins niður brot af þeim fjölda fyrsta daginn, sem vanur maður gerir, þá eykst hraðinn með tímanum – jafnvel þótt farið sé að öllum reglum. Á endanum ná menn nánast sömu gróðursetningarafköstum, hvort sem þeir gróðursetja vel eða illa. Hins vegar getur verið gífurlegur munur á afföllum milli manna. Því skipta vönduð vinnbrögð sköpum um framhaldið.

Staðarval: Mikilvægt er að velja plöntunni stað nærri einhvers konar lágskjóli. Það getur t.d. verið þúfa, steinn eða plógsstrengur. Reynt er að setja plöntuna í skjól fyrir þeirri vindátt, sem verst er á svæðinu. Þurfa gróðursetningarmenn við upphaf verks að vita, hvaða vindátt sé líklegust til að verða trjáplöntum skeinuhætt. Alls ekki má planta, þar sem flag er eða melur frá náttúrunnar hendi. Slíkir blettir eru gróðurlausir vegna mikillar frostlyftingar. Lendi planta á slíkum bletti, mun hún vísast lyftast með holklaka og liggja laus ofan á jörðinni næsta vor! Hins vegar má gjarnan planta við jaðar slíkra bletta. Forðast ber að gróðursetja þétt uppvið snarrótarþúfu sem og í fjalldrapahrís. Slíkir staðir bera dauðann í sér!  Í þýfðu landi má alls ekki gróðursetja ofan á þúfur, heldur í hliðar þeirra eða á milli þúfna.

Gróðursetningardýpi: Plöntur á að setja dýpra en nemur plöntutappanum. Flestar tegundir geta sett nýjar rætur frá stofninum ofan við rótarhálsinn, lendi nokkrir neðstu cm stofnsins ofan í mold. Þetta á einkum við um aspir og víði en einnig gætir þessa hjá greni og lerki. Helst myndu stafafura og birki fúlsa við því að lenda of djúpt, en þumlungur af stofni plantna þessara tegunda má þó lenda ofaní mold.

Gróðursetningarbil: Flestum hættir til að minnka bil milli plantna, þegar frá líður. Því er nauðsynlegt að mæla út öðru hvoru, hvaða bil maður hefur verið að nota og í framhaldinu að leiðrétta bilið á grundvelli þeirrrar mælingar til samræmis við það sem fyrir er lagt í áætlun. Heilladrjúgt er að hafa hugfast, að svæðið verður á endanum að skógi, hvort sem gróðursett er með 1 m eða 2 m millibili. Hins vegar þarf fjórfalt fleiri plöntur á ha, ef sett er með eins meters bili. Þetta þýðir að hægt er að rækta fjórfalt meiri skóg fyrir sama pening, sé sett með tveggja metra bili en sé aðeins sett með eins metra bili. Vart þarf að fjölyrða um, hve miklu dýrara er að rækta upp skóg með þéttri gróðursetningu. Ekki aðeins vex kostnaðurinn í nær réttu hlutfalli við fjölda plantna á ha, heldur kostar grisjun miklu meira, sé gróðursett of þétt. Vissulega má segja að sé gróðursett þétt megi velja úr bestu líftrén og láta hin gossa við grisjun. Eftir standi þá í lokin betri skógur en ella. Þetta er að sínu leytinu rétt. Hins vegar á þessháttar hugsun ekki rétt á sér í okkar víðlenda, skóglausa landi. Þar sem tré í fyrstu kynslóð verða flest á endanum fyrir því, einu sinni eða oftar um æfiskeið sitt, að toppur brotni í stórviðri með tilheyrandi galla á stofni til allrar framtíðar. Meiru skiptir að koma nú skógi í sem víðastar lendur. Við ræktun annarrar kynslóðar skógar geta gæðasjónarmiðin komið sterkar inn. Þetta sjónarmið skiptir aukin heldur enn meira máli, þegar kolefnisbinding er að verða eitt hinna mikilvægustu hlutverka uppvaxandi skóga.

Gróðursetningartími: Besti gróðursetningartíminn er annaðhvort strax og holklaki er úr jörð að vorinu (sé hægt að koma plöntum á staðinn, kemur jafnvel til greina að gróðursetja, áður en klaki er alveg horfinn) – eða á haustin. Þó svo að Vesturlandsskógar gefi kost á, að vorgróðursetning haldi áfram út júnímánuð, er ótvírætt best að geta lokið henni í fyrri hluta þess mánaðar. Annar tími, sem hentar ekki síður er haustið. Þá er átt við tímabilið frá miðjum ágústmánuði og jafnvel út októbermánuð, ef frost er ekki hlaupið í jörð fyrr. Þótt ekki sé á það að treysta, hefur m.a.s. komið fyrir, að hægt hafi verið að gróðursetja í nóvember og jafnvel í desember. Hefur árangur verið góður af gróðursetningu á þeim tíma, svo framarlega sem gróðursett er í handflekkjað land eða land sem ekki þarf að flekkja. Því má svo sannarlega segja að á haustinu gefist rýmri tími til gróðursetningar. Vesturlandsskógar eru þess eindregið hvetjandi, að menn auki haustgróðursetningu. Þó ber að hafa í huga, að sé gróðursett í unnið land, t.d. vélflekkjað eða plægt, er talið að hættan á frostlyftingu sé að öðru jöfnu meiri eftir haustgróðursetningu en vorgróðursetningu. Þetta gætu menn þó fyrirbyggt t.d. með því að sá lítilsháttar af rýgresi eða höfrum, ásamt fáeinum áburðarkornum, í þá bletti sem ætlunin er að gróðursetja í að hausti. Mjög grasgefið land ætti þó fortakslaust að vinna að hausti og gróðursetja í sem fyrst vorið eftir og bera þá á tilbúinn áburð umhverfis plöntuna strax eftir gróðursetningu. Ástæðan: Í slíku landi grær grasið að og yfir plönturnar á fáum árum, svo þar skiptir sköpum að plönturnar fái sem best forskot.

Við haustgróðursetningu ber að öllu jöfnu að nota plöntur, sem búið er að skyggja síðsumars og ætlaðar eru sérstaklega til haustgróðursetningar eða myndu að öðrum kosti eiga að gróðursetjast vorið eftir. Plöntur af lerki og stafafuru, sem ekki næst að gróðursetja að vorinu, verða ónothæfar til haustgróðursetningar. Verður því að fleygja þeim, sem ekki næst að gróðursetja að vori, hafi þeim verið ætlað að komast í jörð þá. Öðru máli gegnir um grenið. Greniplöntur, sem ekki komast í jörð að vori, má gróðursetja að hausti – að því tilskyldu, að rótarkerfið hafi ekki vaxið ótæpilega niður í undirlagið.

Plöntudreifing

Vesturlandsskógar hafa komið sér upp dreifingarstöðvum, svo enginn þurfi að sækja plöntur mjög langan veg. Er þá ekki síst horft til þess, að á dreifingarstöðvunum fái plönturnar bestu hugsanlega umönnun. Liðið geta þónokkrar vikur frá því að framleiðandi afhendir plöntur, þar til skógarbóndi getur gróðursett þær. Því er ætlunin að bændur taki ekki á dreifingarstöð nema tveggja daga skammt af plöntum í hverri ferð, nema þeir hafi þeim mun betri aðstöðu (og þekkingu) til að annast plönturnar á heimaslóð. Vesturlandsskógar eiga yfirbyggðar plöntuflutningakerrur, eina fyrir hverja dreifingarstöð. Þær geta menn fengið lánaðar, enda mikilvægt, að plöntur séu fluttar í lokuðum kerrum. Alls ekki má flytja plöntur í opinni kerru dreginni af fólksbíl (eða jeppa) á venjulegum ökuhraða. Sé slíkt gert, lenda plönturnar í hinu versta veðri á leiðinni (bíll, sem ekur á 60 km hraða á klst. ekur með 17 m hraða á sekúndu og verður vindstyrkurinn sá hinn sami, ef logn er úti, en sé t.d. mótvindur sem nemur 10 m á sekúndu, verður vindstyrkurinn 27 m á sekúndu!) með tilheyrandi skertum vaxtarþrótti.

Comments are closed.